[x]
12. febrúar 2008

Borkjarnaskanni í útibú ÍSOR á Akureyri

Borkjarnaskanni var nýlega prufukeyrður á ÍSOR en hann er eina tækið sinnar tegundar á Íslandi.  Borkjarnaskanninn og smartCIS-kerfið (Camera Image Scanner) voru keypt fyrir djúpborunarverkefnið (IDDP) af ÍSOR, Rannsóknastofnun byggingaiðnaðarins (nú Nýsköpunarmistöð Íslands) og Náttúrufræðistofnun Íslands og voru kaupin að mestu fjármögnuð af Tækjasjóði Rannís og ÍSOR. Borskanninn verður staðsettur á útibúi ÍSOR á Akureyri en er auðveldur í flutningum og hentar vel til notkunar á borstað eða á öðrum rannsóknastofum. Fyrir stór alþjóðleg samstarfsverkefni á borð við djúpborunarverkefnið IDDP er mjög mikilvægt að allir sem koma að rannsóknum, t.d. á borkjarnanum geti skoðað hann sem fyrst, m.a. til þess að velja sýni til frekari rannsókna. Borkjarni getur gefið upplýsingar um sprungur, sprungufyllingar og bæði greint stefnu þeirra og halla, sem og afstæðan aldur.Skönnun fer þannig fram að myndavél færist á sleða og tekur myndir af t.d. kjarna, svarfi eða þunnsneiðum sem síðan er skeytt saman í meðfylgjandi hugbúnaði þannig að til verður samfelld mynd. Hægt er að taka mynd af öllu yfirborði sívals kjarna (360° myndir) og kjarna sem hefur verið sagaður eftir endilöngu. Með skannanum er einnig hægt er að taka myndir af hvers konar sýnum. Þessi skanni opnar nýja möguleika við að skoða jarðlagasýni, eins og borkjarna, svarf eða þunnsneiðar og mun betri aðstæður verða fyrir hendi til að byggja upp rafrænan gagnagrunn.