[x]
18. apríl 2013

Borholumælingar í Hollandi

Borsvæði Daldrup & Söhne AG í Hollandi.Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR) hafa náð samkomulagi við þýska borfyrirtækið Daldrup & Söhne AG (www.daldrup.eu) um að sinna mælingum í tveimur borholum sem þeir eru nú að bora í lághita við Heemskerk í Hollandi.
Borað verður niður á ríflega 3000 metra dýpi til að afla hita fyrir gróðurhús.

ÍSOR sendi tækjabúnað, einn af sínum borholumælingabílum, utan til að sinna þessu verkefni. Reiknað er með að fyrstu mælingar hefjist rétt fyrir mánaðarmótin apríl / maí, en þá verða sendir tveir sérfræðingar frá ÍSOR til að stýra mælingunum. Um er að ræða steypumælingar, víddarmælingar og hugsanlega gammamælingar.

Þetta er í fyrsta sinn sem ÍSOR sendir borholumælingabíl utan til Evrópu, en fyrir rúmu ári var sérútbúinn borholumælingabíll og færanleg rannsóknarstofa send utan til verkefna í Dóminíku í Karíbahafi. Borholumælingabíllinn sem sendur var út til Evrópu er sérútbúinn til mælinga í allt að 5 km djúpum borholum. Hörður Halldórsson, deildarstjóri hjá ÍSOR, er fullur bjartsýni á að fleiri gerðir mælinga geti fylgt í kjölfarið, því ef vel tekst til er líklegt að Daldrup & Söhne bori fleiri holur í Hollandi.