Laugardaginn 2. desember síðastliðinn hóf jarðborinn Saga frá Jarðborunum hf. borun nýrrar vinnsluholu á jarðhitasvæðinu að Reykjum við Reykjabraut. Verkið er unnið fyrir Rarik vegna hitaveitu á Blönduósi og hugsanlega stækkun veitunnar til Skagastrandar. Starfsmenn ÍSOR annast ráðgjöf við staðsetningu holunnar og eftirlit með borun hennar. Síðast var boruð vinnsluhola á Reykjum árið 1997, hola RR-12, og hefur hún verið aðalvinnsluhola veitunnar síðan. Síðastliðinn vetur og vor var hluti jarðhitasvæðisins segulmældur og átta grunnar hitastigulsholur boraðar. Í kjölfarið jarðhitaleitarinnar og með hliðsjón af fyrri athugunum var ný hola staðsett, hola R-21, skammt vestur frá holu 1, sem boruð var 1967 við heitustu laugina á jarðhitasvæðinu.Áætlað er að dýpt nýju holunnar verði allt að 1000 m. Hún var fyrst boruð með 17½” niður í 25 m dýpi og fóðruð með 14” röri sem var steypt fast. Þar fyrir neðan var borað með 12½” borkrónu og lofti niður í 167 m og sá hluti holunnar fóðraður með 10¾ fóðurröri og það steypt fast. Neðan fóðringar er borað með 97/8” lofthamri en reiknað er með bora þurfi með vatni og 8½” hjólakrónu .þegar neðar dregur. Að morgni 16. desember kom borinn í vatnsæð á 595 m dýpi og var loftborun þá hætt.