[x]
5. mars 2004

Blástursprófun holu ÞG-2 á Þeistareykjum

Fyrir nokkru brutust starfsmenn Orkuveitu Húsavíkur og ÍSOR upp á Þeistareyki til að setja holu ÞG-2 í blástur. Þetta er önnur rannsóknarholan á Þeistareykjum. Borun holunnar lauk snemma í desember 2003 og er dýpt hennar 1720 metrar. Farið var á tveimur öflugum túttujeppum, en snjóþyngsli eru mikil á Norðausturlandi eins og alþjóð veit. Ekið var sem leið liggur upp á Reykjaheiði og tók ferðin upp á Þeistareyki, þessa 30 kílómetra, aðeins tæpa tvo tíma. Hola ÞG-2 var á sínum tíma sett niður í smálægð af umhverfisástæðum. Snjóþykktin er því sérstaklega mikil á borplaninu og rétt glitti í holutoppinn, þegar að var komið, og um 2,5 m voru niður á mælikar við hljóðdeyfinn. Holan var þrýstingslaus, en smávelgja var á holutoppnum og eimdi upp úr holunni þegar opnað var fyrir hana. Greiðlega gekk að koma holunni í gos eins og meðfylgjandi myndir sýna. Afköstin bera með sér að holan er enn kæld frá boruninni. Eys hún af sér um 220°C vatni og er varmaaflið um 25 MW. Holan mun hitna og magnast á næstu mánuðum og þá skýrist hvert raunverulegt afl hennar er.