[x]
10. júní 2016

Binding koltvísýrings (CO2) í basalt

Fjölmargir sérfræðingar, innlendir jafnt sem erlendir, hafa komið að tilraunaverkefni á Hellisheiði sem ber heitið CarbFix. Rannsóknirnar hafa sýnt fram á að hægt er að binda koltvísýring í bergi á um tveimur árum en áður var talið að það tæki mörg þúsund ár. Þetta kemur fram í vísindagrein sem birtist í dag, 10 júní, í vísindatímaritinu Science. Greinin heitir Rapid carbon mineralization for permanent disposal of anthropogenic carbon dioxide emission. Höfundar eru m.a. frá Háskóla Íslands, Orkuveitu Reykjavíkur, ÍSOR, Columbia University í New York, CNRS í Toulouse, University of Southampton, University College í London og Kaupmannahafnarháskóla. Hægt er að nálgast greinina hér.

Markmið CarbFix-verkefnisins er að finna leiðir til að binda koltvísýring í steindir, djúpt í basaltberglögum í nágrenni Hellisheiðarvirkjunar. Koltvísýringurinn er leystur í vatni og því dælt niður í borholu, með tímanum binst það berginu og myndar steindir.

Við hjá ÍSOR samgleðjumst öllum og erum afar stolt af okkar fólki sem tók þátt í verkefninu. Guðni Axelsson, sérfræðingur hjá ÍSOR, er meðhöfundur að greininni. Auk hans á Sandra Ósk Snæbjörnsdóttir jarðfræðingur (nú í leyfi frá ÍSOR) stóran þátt í greininni en CarbFix-verkefnið er doktorsnám hennar við Háskóla Íslands.

Fjallað eru um verkefnið í öllum stærstu fréttamiðlum heimsins, þar á meðal:

RÚV
MBL
VÍSIR
New York Times
New Scientist
Wired
The Guardian
WashingtonPost