[x]
16. júlí 2009

Bandarískir háskólanemar kynna sér borholumælingar ÍSOR

Ár hvert koma fjölmargir innlendir sem erlendir hópar í heimsókn til ÍSOR. Nýverið komu tuttugu bandarískir háskólanemendur, á sumarnámskeiði hjá orkuskólanum RES (the School for Renewable Energy Science) á Akureyri, og kynntu sér starfsemi ÍSOR. Þau fengu meðal annars að kynnast borholumælingum. Skoðaðir voru sérútbúnir mælingabílar og hinir mismunandi borholumælar sem eru notaðir við jarðhitarannsóknir, eins og hita- og þrýstimælar, viðnáms-, steypu-, og víddarmælar.

Hiti og þrýstingur eru mikilvægar mælistærðir í rannsóknum á jarðhita. Hitamælingar eru notaðar til að meta hitadreifingu, finna vatnsæðar og segja til um streymi vökva í jarðhitakerfum. Hitaástand og þrýstibreytingar ráða vinnslugetu jarðhitakerfa, þ.e. hversu mikla orku má vinna úr þeim.

Við þökkum nemendunum fyrir komuna og vonum að þeir fari fróðari heim á leið.

Peter Eric jarðfræðingur sýnir borholumæla.

Peter Eric Danielsen sýnir borholumæla ÍSOR. Ljósm. Brynja Jónsdóttir

Peter Eric Danielsen jarðfræðingur með nokkra borholumæla fyrir framan sig. Viðnámsæli, gammamæli, steypumæli, víddarmæli, gýrómæli og hitamæli. Ljósm. Brynja Jónsdóttir.