[x]
12. desemeber 2007

Aukið samstarf við Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, Lárus Thorlacius forseti raunvísindadeildar, Guðrún Helga Brynleifsdóttir stjórnarformaður ÍSOR, Ólafur G. Flóvenz forstjóri ÍSOR, Guðni Axelsson deildarstjóri ÍSOR og Ebba Þóra Hvannberg forseti verkfræðideildar. Birt með leyfi, ljósm. Jóra JóhannsdóttirHáskóli Íslands og  Íslenskar orkurannsóknir hafa undirritað samning um að dr. Ólafur G. Flóvenz forstjóri ÍSOR  og dr. Guðni Axelsson deildarstjóri hjá ÍSOR  gegni starfi gestaprófessors við verkfræði- og raunvísindadeildir HÍ. Markmið samningsins er að styrkja kennslu og rannsóknir í jarðhitafræðum. HÍ og ÍSOR hafa átt í farsælu samstarfi um langt skeið og samningurinn nú byggir á eldri samstarfssamningi. Þeir Ólafur og Guðni hafa kennt námskeið og leiðbeint nemendum í framhaldsnámi við Háskóla Íslands um árabil.

Ólafur G. Flóvenz er doktor í jarðeðlisfræði frá Háskólanum í Bergen. Hann hefur gegnt starfi forstjóra ÍSOR frá árinu 2003. Jafnframt hefur hann verið virkur í vísindarannsóknum og birt fjölda greina á þeim vettvangi, m.a. um byggingu jarðskorpunnar, varmaástand hennar og eðli jarðhita. Ólafur hefur sinnt stundakennslu við verkfræði- og raunvísindadeildir Háskóla Íslands frá því 1981 í eðlisfræði, jarðeðlisfræði, jarðhitafræði og jarðvarmatækni.

Guðni Axelsson er doktor í jarðeðlisfræði frá Oregon State University. Guðni er deildarstjóri eðlisfræðideildar ÍSOR. Hann hefur lengi verið einn helsti sérfræðingur Íslendinga í forðafræði jarðhitakerfa. Hann hefur stundað vísindarannsóknir á því sviði í um þrjá áratugi og auk hagnýtra verkefna m.a. komið að rannsóknum á eðli jarðhita í Surtsey og í Gjálp í Vatnajökli. Guðni hefur birt fjölda vísindagreina og skýrslna. Hann hefur um árabil komið að leiðbeiningu meistara- og doktorsnema við Háskóla Íslands og kennt í námskeiðum á sviði jarðeðlisfræði, jarðhitafræði og jarðvarmatækni.