[x]
30. apríl 2008

Aukið samstarf við Háskóla Íslands

Háskóli Íslands og ÍSOR hafa undirritað samning um að dr. Halldór Ármannsson hjá ÍSOR gegni starfi gestaprófessors við verkfræði- og raunvísindadeildir HÍ. Markmið samningsins er að styrkja kennslu og rannsóknir í jarðhitafræðum. HÍ og ÍSOR hafa átt í farsælu samstarfi um langt skeið og hafa gert með sér samstarfssamning með það að markmiði að efla og treysta samskipti stofnananna enn frekar. Halldór Ármannsson lauk doktorsprófi í jarðefnafræði frá háskólanum í Southampton 1978.  Hann hefur sem sérfræðingur á Jarðhitadeild Orkustofnunar, nú ÍSOR, unnið að jarðhitarannsóknum hér á landi og erlendis.  Rannsóknir Halldórs hafa einkum snúist um efnafræði jarðhita og hefur hann ritað fjölda greina og skýrslna um rannsóknir sínar.  Þá hefur Halldór um langt árabil verið stundakennari í jarðvísindum við Háskóla Íslands og m.a. leiðbeint framhaldsnemum.Jafnframt var undirritaður samningur milli ÍSOR og Jarðvísindastofnunar Háskólans um að Freysteinn Sigmundsson vísindamaður hjá Jarðvísindastofnun muni gegna 35% starfi sem gestavísindamaður hjá ÍSOR. Freysteinn er doktor í jarðeðlisfræði og var um árabil forstöðumaður Norrænu Eldfjallastöðvarinnar. Sérfræðistörf Freysteins hafa einkum verið á sviði jarðskorpuhreyfinga. Fyrst um sinn mun Freysteinn sinna jarðvísindalegum verkefnum á sviði landgrunns- og hafréttarmála.Meðfylgjandi mynd var tekin af ljósmyndara HÍ við undirritun samningsins. Þá var einnig gerður samningur á milli HÍ og Orkustofnunar um að dr. Ingvar Birgir Friðleifsson forstöðumaður Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna, gengdi starfi gestaprófessors við verkfræði- og raunvísindadeildir HÍ. Sitjandi f.v.: Lárus Thorlacius forseti raunvísindadeildar, Freysteinn Sigmundsson, sérfræðingur Jarðvísindastofnun HÍ, Halldór Ármannsson, ÍSOR, Ingvar Birgir Friðleifsson, Orkustofnun, Ebba Þóra Hvannberg, forseti verkfræðideildar. Standandi f.v.: Stefán Arnórsson, Jarðvísindastofnun HÍ, Ólafur G. Flóvenz, forstjóri ÍSOR, Guðni A. Jóhannesson, orkumálastjóri, Kristín Ingólfsdóttir, rektor HÍ, Jón Atli Benediktsson, þróunarstjóri og aðstoðarmaður rektors, og Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor. Ljósm. Jóra Jóhannsdóttir.