[x]
11. júní 2013

Athugsemdir um jarðhitavirkjanir

Vegna umræðna í fjölmiðlum um jarðhitavirkjanir og misskilnings sem oft gætir í umfjöllun um jarðhitaauðlindina  vill ÍSOR koma á framfæri eftirfarandi upplýsingum:

1.      Jarðhitasvæði einkennast af því  að saman fer hár hiti tiltölulega grunnt í jörðu og lek jarðlög og sprungur sem gera það kleift að vinna varmann úr jörðunni. Auðlindin er hulin augum okkar undir yfirborði jarðar og stærð hennar og eiginleikar verða aðeins ákvörðuð með óbeinum mælingum og síðar borunum og vinnslu.

2.      Áður en svæði er virkjað, hvort sem um er að ræða háhitasvæði eða lághitasvæði fyrir hitaveitur, eru gerðar jarðvísindalegar rannsóknir sem leiða til þess að boraðar eru holur til að staðfesta niðurstöður rannsóknanna.

3.      Þegar holur hafa hitt í heitt vatn eru þær afkastaprófaðar í skamman tíma. Með því fæst mat á afköst holnanna sjálfra og fyrsta mat á viðbrögðum jarðhitasvæðisins sjálfs. Áreiðanleiki matsins á jarðhitasavæðinu sjálfu fer m.a. eftir því hve lengi afkastaprófunin stendur.

4.      Í öllum jarðhitakerfum lækkar þrýstingur  þegar vinnsla hefst, hratt í fyrstu en síðan dregur úr þrýstifallinu með tíma. Það fer eftir því hversu greitt innstreymi vatns er í jarðhitakerfi hvenær og hvort jafnvægi næst. Ef jafnvægi næst eða þrýstingur lækkar mjög hægt er komin á sjálfbær vinnsla. Náist hún ekki þarf annað hvort að draga úr vinnslunni eða bæta upp þrýstifallið í jarðhitakerfinu með niðurdælingu sem endurnýjar vatnsforða kerfisins. Í þessu samhengi er rétt að taka fram að niðurdæling sem ekki skilar vökvanum aftur inn í jarðhitakerfið er gagnslaus í þessu samhengi.

5.      Orkan sem fólgin er  í bergi jarðhitasvæða  er gríðarmikil og takmarkar ekki vinnslugetu þeirra en vandinn er að ná til hennar.  Í langflestum tilfellum takmarkast vinnslugeta íslenskra jarðhitakerfa af lekt þeirra og aðgengi vatns að heitu berginu.  Þessu má mæta með vel stýrðri niðurdælingu vatns í jarðhitakerfið sem vegur á móti minnkandi vinnslu vegna þrýstilækkunar.

6.      Fyrst þegar jarðhitasvæði er komið í vinnslu og sú vinnsla hefur staðið í nokkur ár fæst mat á því hvort jarðhitakerfið stendur undir þeirri vinnslu sem lagt var upp með. Af þessari ástæðu hefur ÍSOR um áratugi lagt til að jarðhitasvæði séu virkjuð í hæfilega stórum áföngum þannig að ekki komi til þess að fjárfest sé um of í borholum og mannvirkjum.  Það hefur sem betur fer oftast verið gert hérlendis og eru virkjanirnar í Svartsengi og Nesjavöllum ágæt dæmi um þrepaskipta stækkun jarðhitavirkjana.  Svipað má segja um þorra lághitasvæða landsins t.d. lághitasvæðin Reykjavík og Mosfellsbæ. En við höfum líka dýrkeypt dæmi um hið gagnstæða og þar ber einna hæst virkjun Laugalands í Eyjafirði á upphafsárum Hitaveitu Akureyrar.  Engin hætta er þó á að jarðhitasvæði skemmist við of mikla vinnslu, afleiðingarnar eru eingöngu fjárhaglegs eðlis á formi offjárfestingar og framleiðslurýrnunar.

7.      Það leiðir eðlilega af þrýstifalli sem verður með tíma við vinnslu háhitasvæða  að afköst holnanna og þar með virkjunarinnar rýrna með tíma. Algengt er að árleg aflrýrnun sé 1-2%. Gert er ráð fyrir þessu í áætlunum um rekstur virkjana með því að reikna með að bora þurfi viðhaldsholur með vissu millibili til að viðhalda vinnslunni. Sé það ekki gert dregur úr framleiðslugetunni.

8.      Uppbygging og rekstur jarðhitavirkjana krefst natni og varfærni. Það á bæði við um háhita- og lághitasvæði. Vandaðar og markvissar rannsóknir eru frumforsenda árangurs í þessum efnum eins og dæmin hafa sýnt. Það eru vandfundin dæmi um að rannsóknir á Íslandi hafi skilað þjóðinni jafnmiklum fjárhaglegum, umhverfislegum og þjóðfélagslegum gæðum og jarðhitarannsóknir liðinna áratuga.