[x]
27. mars 2012

Ársskýrsla ÍSOR

Ársskýrsla ÍSORÁrsskýrsla ÍSOR fyrir árið 2011 er komin á vefinn. Þar kemur m.a. fram að verkefnum erlendis hefur fjölgað umtalsvert. Tekjur vegna þeirra hafa aukist  um 16% á milli ára í 32,7% af heildartekjum ÍSOR fyrir árið 2011. Aðallega var um að ræða verkefni í Chile, Kenía, Níkaragva, Dóminíku, Króatíu, Eþíópíu og Tyrklandi.

 
Af innlendum vettvangi má segja að starfsemi ÍSOR markast mjög af langvarandi óvissu um framtíðaráform í orkumálum á Íslandi. Umtalsverður hluti af starfsemi ÍSOR hefur undanfarin ár tengst þjónustu við boranir á háhitasvæðum á Íslandi. Í þeim tilgangi hefur ÍSOR byggt upp öfluga starfsemi í borholumælingum og borholujarðfræði, bæði með verulegri fjárfestingu í tækjum til borholumælinga og í þjálfun nýs starfsfólks. Verkefni á þessum sviðum hafa dregist gríðarlega saman síðan árið 2008. 
 
Helstu verkefni ÍSOR innanlands fólust í rannsóknum, ráðgjöf og þjónustu fyrir orkufyrirtækin í landinu. Um var að ræða hefðbundið vinnslueftirlit, forðafræðilíkön, borráðgjöf og umhverfiseftirlit ásamt ýmsum rannsóknum er tengdust vandamálum við vinnslu jarðhita eða jarðhitaleit. Þá vó þjónusta í tengslum við boranir fjögurra háhitaholna nokkuð þungt, tveggja á Þeistareykjum og einnar á Hellisheiði og Reykjanesi. Þá hefur ÍSOR sem fyrr unnið sem aðalvísindaráðgjafi Orkustofnunar í olíu- og landgrunnsmálum.
 
Auk þjónustustarfsemi tók ÍSOR þátt í mörgum rannsóknarverkefnum, meðal annars með stuðningi orkufyrirtækja og innlendra og erlendra rannsóknarsjóða. Eitt stærsta rannsóknarverkefnið þessi misserin er samevrópskt rannsóknarverkefni um jarðskjálfta í tengslum við niðurdælingu jarðhitavökva en það mál komst mjög í sviðsljósið á árinu vegna jarðskjálfta á niðurdælingarsvæði Orkuveitu Reykjavíkur við Hellisheiðarvirkjun.
 
Hægt er að nálgast Ársskýrslu ÍSOR 2011 með því að smella á hlekkinn. Eldri ársskýrslur eru undir liðnum útgáfa.
Prentað eintak af ársskýrslunni er hægt að panta með því að senda tölvupóst á netfangið isor@isor.is.