[x]
27. mars 2017

Ársfundur ÍSOR 2017

Ársfundur ÍSOR var haldinn í Hofi á Akureyri föstudaginn 24. mars. Ársfundur ÍSOR var haldinn í Hofi á Akureyri föstudaginn 24. mars. Yfirskrift fundarins var „Orkuvinnsla úr rótum háhitakerfa“ þar sem kynnt voru fjölbreytt verkefni sem ÍSOR hefur tekið þátt í. Öll miða verkefnin að því að auka þekkingu á sviði nýtingar jarðhita úr rótum háhitakerfa.

Á fundinum flutti Björt Ólafsdóttir, umhverfisráðherra, ávarp sem streymt var frá Reykjavík. Björt komst ekki norður en ófærð og veður settu mark sitt á fundinn.
Ólafur G. Flóvenz, forstjóri ÍSOR, ræddi í  erindi sínu það lykilhlutverk sem jarðvísindi hafa gegnt við uppbyggingu íslensks orkuiðnaðar og þeirri framsýni og þolinmæði sem menn hafa sýnt við rannsóknir á beislun og nýtingu jarðhitans. Loftslagsmál eru eitt mikilvægasta viðfangsefni framtíðarinnar en í dag erum við stödd á nýju og veigamiklu breytingaskeiði í orkumálum landsins. Þar blasir rafvæðing samgangna við sem næsta stóra skrefið í átt að minna kolefnisspori og getur reynsla Íslendinga af nýtingu jarðhita til húshitunar og raforkuframleiðslu nýst þar vel. Með rammaáætlun hefur stór hluti ósnortinna vatnsfalla og þekktra háhitasvæða verið friðaður fyrir virkjunum, ýmist til að vernda náttúrlegt umhverfi þeirra eða nýta þau til tekjuöflunar í gegnum ferðaþjónustu. Þetta þýðir að jarðhitavirkjanir þurfa nú nýja nálgun. Sú nálgun felst í að nýta betur og dýpra þau svæði sem við höfum þegar virkjað auk þess að kanna raunhæfa möguleika á því að vinna orku úr gosbeltum landsins utan háhitasvæðanna.

Guðmundur Ómar Friðleifsson, yfirjarðfræðingur HS Orku, hélt erindi um djúpborunarverkefnið en þar hafa íslensk orkufyrirtæki, Orkustofnun, erlendir rannsóknasjóðir og rannsóknar- og þjónustuaðilar eins og ÍSOR tekið höndum saman um að þróa aðferðir og rannsóknir á því sviði. Yfirstíga þarf ýmis vísindaleg og tæknileg vandamál varðandi nýtingu þeirrar miklu orku sem nú hefur verið sannað að ná megi upp úr rótum háhitakerfanna.

Nokkrir jarðhitasérfræðingar hjá ÍSOR voru með erindi. Benedikt Steingrímsson, sviðstjóri háhita, fjallaði um mælingar í ofurheitum borholum, Hanna Blanck jarðeðlisfræðingur sagði frá hvernig jarðskjálftamælingar nýtast við rannsóknir úr dýpri lögum jarðhitakerfanna og Ragnheiður Steinunn Ásgeirsdóttir jarðfræðingur skýrði út þær margvíslegu rannsóknir sem gerðar eru samhliða borun eftir háhitagufu. Fundurinn endaði síðan á erindi frá Ingólfi Þorbjörnssyni, deildarstjóra jarðhitaverkfræði, en hann kynnti fóðringatengi sem verkfræðingar ÍSOR hafa verið að hanna og eiga að þola mjög háan hita.

Ársskýrslu ÍSOR  má nálgast hér á vefnum.

Vel var mætt af fólki norðan heiða á ársfund ÍSOR.

Guðmundur Ó. Friðleifsson, Gunnar Skúlason Kaldal og Ingólfur Ö. Þorbjörnsson skoða fóðringatengi sem ÍSOR hefur þróað.