[x]
2. apríl 2009

Ársfundur ÍSOR 2009

Jarðfræði og auðlindir vestara gosbeltisins voru meginþema sjötta ársfundar ÍSOR sem haldinn var í Salnum í Kópavogi. Á annað hundrað manns sóttu fundinn og var Svanfríður Jónasdóttir, fulltrúi í stjórn ÍSOR, fundarstjóri.

Forseti Íslands ávarpaði fundinn og Ólafur G. Flóvens, forstjóri ÍSOR, fór svo yfir starfsemi og afkomu ÍSOR á liðnu ári. Starfsemin gekk prýðisvel og voru verkefni tengd háhitaborunum áberandi mikil. Alls voru boraðar 29 háhitaholur, fleiri en nokkur sinni fyrr, og snerist starfsemi ÍSOR mjög um þjónustu við þessar miklu boranir. Markvissri uppbyggingu á tækjum og aðstöðu til rannsókna var fram haldið og var m.a. nýr bíll til hita- og þrýstingsmælinga tekinn í notkun. Í máli Ólafs kom fram að framtíðaráform íslensk orkuiðnaðar væru í óvissu vegna fjármálakreppunnar sem skall á haustið 2008. Þetta gæti þýtt mikinn samdrátt í starfsemi ÍSOR en sem betur fer hefði fjármálastjórn og afkoma fyrirtækisins verið traust á umliðnum árum.

Fluttir voru sex fyrirlestrar á fundinum:
Haukur Jóhannesson, jarðfræðingur á ÍSOR, ræddi um jarðfræði og gossögu vestara gosbeltisins
Hjalti Franzson, yfirverkefnisstjóri hjá ÍSOR fyrir Orkuveitu Reykjavíkur, fjallaði um háhitasvæðið í Hengli.
Hjörleifur Kvaran, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, ræddi um orkuvinnslu OR í vestara gosbeltinu.
Þórólfur H. Hafstað, grunnvatnssérfræðingur hjá ÍSOR, leiddi fundargesti í allan sannleikann um grunnvatnsstrauma og vatnsforðabúr framtíðar.
Daði Þorbjörnsson hélt tölu um áhrif Suðurlandsskjálftans 29. maí á jarðhitakerfin.
Ragna Karlsdóttir fjallaði um Geysi og háhitasvæðin á miðhálendinu.

Fyrirlestrarnir eru aðgengilegir  hér á vefnum.

Þórólfur Hafstað og Sverrir Þórhallsson ræða grunnvatsstrauma. Ljósmynd Árni Hjartarson

Þórólfur Hafstað og Sverrir Þórhallsson ræða grunnvatsstrauma. Ljósmynd Árni Hjartarson.