[x]
31. mars 2008

Ársfundur ÍSOR 2008

Umhverfismál og háhitavirkjanir frá ýmsum sjónarhornum voru þema fimmta ársfundar ÍSOR sem haldinn var á Akureyri, 28. mars. Um 120 manns sóttu fundinn. Hann hófst á því að Ólafur G. Flóvenz, forstjóri, fór yfir liðið ár og gerði grein fyrir afkomu ÍSOR, sem var sú besta frá því ÍSOR varð að sjálfstæðri stofnun. Starfsemin jókst verulega og þannig fjölgaði ársverkum úr 73 í 87, sem má að mestu rekja til þeirrar miklu uppbyggingar sem átt hefur sér stað við virkjun háhitasvæðanna til raforkuvinnslu. Í máli Ólafs kom einnig fram að hvernig sem fjármálakreppan birtist okkur Íslendingum mun orkuiðnaðurinn standa hana af sér og ef til vill fremur eflast en hitt, því heimurinn er í mikilli þörf fyrir orku sem ekki veldur loftslagsmengun.

Til að varpa ljósi á kosti og galla orkuvinnslu úr háhita fyrir umhverfi og þjóðfélag voru fluttir 6 fyrirlestrar. Ingvar Birgir Friðleifsson, forstöðumaður Jarðhitaskólans, leiddi fundargesti í allan sannleika um þann mikla umhverfisávinning sem vinnsla jarðhita víða um heim hefur í för með sér og þá möguleika sem frekari nýting jarðhita gefur í baráttunni við loftslagsbreytingarnar. Guðni Axelsson, deildarstjóri á ÍSOR ræddi um nýtingu jarðhitasvæðanna, hvernig endurnýjanleika þeirra er háttað og hvernig við getum hagað sjálfbærri orkuvinnslu úr þeim. Halldór Ármannsson, jarðefnafræðingur á ÍSOR, fjallaði um þróun aðferða til að eyða að fullu loftmengun frá jarðhitavirkjunum, þar með talinni hinni hvimleiðu hveralykt. Haukur Jóhannesson, jarðfræðingur á ÍSOR, lýsti jarðfræðiminjum á háhitasvæðum og fjallaði um verndargildi þeirra. Árni Ólafsson, arkitekt  á Akureyri, sagði frá skipulagsmálum við virkjun háhitasvæða og loks gerði Svanfríður Jónasdóttir, formaður stjórnar rammaáætlunar og fulltrúi í stjórn ÍSOR, grein fyrir rammaáætlun ríkisstjórnarinnar um vernd og nýtingu.
Hægt er að nálgast erindi frá fundinum. Ljósmyndir hér að neðan tók Árni Hjartarson.

Árni Ólafsson arkitekt frá Teiknistofu arkitekta, Akureyri og fundarstjórinn Helga Margrét Helgadóttir jarðfræðingur.


 Gestir á ársfundi ÍSOR 2008.