[x]
2. apríl 2007

Ársfundur ÍSOR 2007

Jón Sigurðsson iðnaðar- og viðskiptaráðherra.Fjórði ársfundur Íslenskra orkurannsókna var haldinn 30. mars sl. á Hótel Selfoss. Um 90 manns sóttu fundinn sem hófst með ávarpi Jóns Sigurðssonar, iðnaðar og viðskiptaráðherra.

Í máli ráðherra kom m.a. fram að vaxandi áhugi er á nýtingu jarðhita til raforkuframleiðslu víða um heim og er talsvert horft til reynslu og þekkingar Íslendinga í því efni. Má því reikna með að ÍSOR eigi mikla útrásarmöguleika á því sviði. Forstjóri ÍSOR Ólafur G Flóvenz flutti skýrslu um starfsemi liðins árs og kom fram í máli hans að mikill vöxtur hefur verið í starfseminni og hefur starfsmönnum fjölgað úr 50 í 70 á undangengnum þremur  árum. Þetta mikla annríki skýrist að hluta til af mikilli vinnu við nýjar jarðvarmavirkjanir bæði á Reykjanesi og Hellisheiði en einnig hefur talsvert verið unnið að undirbúningsrannsóknum á ýmsum háhitasvæðum, bæði  vegna rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðhita og vegna hugsanlegra nýrra virkjana. Þessi mikla vinna hefur skilað viðunandi afkomu af rekstri ÍSOR og er tekjuafgangur notaður til að byggja upp færni á ÍSOR bæði í tækjum og mannafla.

Meginefni fundarins var síðan ítarleg umfjöllun um verkefni á sviði landgrunns rannsókna og hafréttarmála sem staðið hafa yfir á ÍSOR um nokkurra ára skeið. Verkefnin eru unnin fyrir utanríkisráðuneytið og Orkustofnun. Tómas H Heiðar, þjóðréttarfræðingur í utanríkisráðuneytinu, gerði  grein fyrir meginlínum hafréttarverkefnisins, en það miða að því að styðja kröfur Íslands til réttinda til auðlinda hafsbotnsins utan 200 mílna efnahagslögsögu. Tómas greindi frá því hvernig staðan er varðandi afmörkun svæðanna og viðræður við grannríki um umdeild svæði. Sérfræðingar ÍSOR þeir Steinar Þór Guðlaugsson, Hjálmar Eysteinsson, Sigvaldi Thordarson og Bjarni Richter fjölluðu síðan nánar um afmarkaða þætti málsins og skýrðu þá. Einnig fjallaði Kristinn Einarsson um nýútkomna skýrslu um undirbúning leyfisveitinga vegna olíuleitar á norðurhluta svonefnds Drekasvæðis, sem er  á suðurhluta Jan-Mayen hryggjarins.  Kristinn er verkefnisstjóri Orkustofnunar í hafsbotnsmálum og þannig tengiliður ÍSOR við iðnaðarráðuneytið.

Góður rómur var gerður að máli fyrirlesara og fóru fundarmenn margs fróðari heim um þau flóknu vísindi sem liggja að baki skilgreiningu á kröfum Íslendinga til  hafsbotnssvæða utan 200 mílna efnahagslögsögu  Íslands.