[x]
8. mars 2018

Ársfundur og ársskýrsla ÍSOR

Ársfundur ÍSOR var haldinn í húsakynnum ÍSOR þann 8. mars, að Grensásvegi 9. Yfirskrift fundarins var Umhverfi og auðlindir. Fundinum var streymt beint og er hægt að horfa á útsendinguna hér á YouTube-rás ÍSOR. Ársskýrsluna má nálgast hér á vefnum.

Sigrún Traustadóttir stjórnarformaður setti fundinn. Að því loknu ávarpaði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, fundargesti og kom m.a. að því að bregðast þarf við orkuþörf framtíðarinnar og í því sambandi að nýta betur þau svæði sem þegar eru nýtt og þá með sjálfbærni að leiðarljósi. 

Ólafur G. Flóvenz forstjóri fór yfir starfsemi ÍSOR og nefndi að það væri orðið tímabært að endurskoða rekstrarform og hlutverk ÍSOR eftir 15 ára starfsemi. Stjórnvöld þyrftu að svara því hvort þau ætluðu ÍSOR eitthvert ákveðið hlutverk fyrir hið opinbera í framtíðinni eða ekki. Framlög ríkisins til grunnrannsókna á jarðrænum auðlindum landsins hafa dregist svo mikið sama og þær eru orðnar nánast að engu. 

Eftirfarandi sérfræðingar ÍSOR fluttu erindi á fundinum:

Ásdís Benediktsdóttir jarðeðlisfræðingur fjallaði um mikilvægi viðnámsmælinga við jarðhitaleit. Nauðsynlegt væri að þekkja auðlindir landins til að takast á við aukna orkunotkun. Hún ræddi hvernig hægt væri að nota slíkar mælingar til þess.

Auður Agla Óladóttir jarðfræðingur, og sérfræðingur í umhverfisrannsóknum, fjallaði um kolefni. Hún ferðaðist vítt og breytt um kolefnislosun hér á landi, allt frá mannlegri losun og losun frá náttúrunnar hendi. 

Erindi Ögmundar Erlendssonar jarðfræðings var um óleystar gátur á hafsbotni. Hann kynnti verkefni þar sem unnið hefur verið að því að kortleggja jarðfræði hafsbotnsins umhverfis landið en stuðst hefur verið við gögn frá Hafrannsóknarstofnun og Landhelgisgæslunni í því skyni. 

Steinunn Hauksdóttir, sviðsstjóri lághita- og náttúrfars, fjallaði um grunnvatnið. Í máli hennar kom m.a. fram að skortur er á sameiginlegri skilgreiningu á grunnvatni. Misræmi er á milli sjónarhorna jarðvísinda og lagarammans um það hvernig grunnvatn er skilgreint og þá hvernig við höfum eftirlit með nýtingu á því. 

Við þökkum þeim fjölmörgum sem komu til að hlýða á erindin og bendum öðrum á að upptökur af fundinum eru aðgengilegar á YouTube-rás ÍSOR.