[x]
3. október 2017

Alþjóðleg jarðvarmaráðstefna 1.-6. október í Hofi á Akureyri

Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR) standa fyrir tveimur fjölmennum jarðvísindaviðburðum í Hofi á Akureyri nú fyrstu vikuna í október.
Um 200 jarðvísindamenn og -konur, þar af 43 frá Íslandi, verða á fundum og á ráðstefnu, IMAGE Final Conference. Novel approaches for Geothermal Exploration,  dagana 1.-6. október. Vísindafólkið kemur frá 15 löndum, þar á meðal frá Nýja-Sjálandi, Ástralíu, nokkrum Evrópulöndum og Mexíkó.

Sækja dagskrá ráðstefnunnar 4.-6. október í pdf skjali.

Fyrri hluta vikunnar, mánudag og þriðjudag, eru fundir í rannsóknarverkefni sem nefnist GEMex (Cooperation in Geothermal energy research Europe-Mexico for development of Enhanced Geothermal Systems and Superhot Geothermal Systems). Tilgangurinn er að afla þekkingar og þróa aðferðir til að nýta heit og örvuð jarðhitakerfi, sem og kerfi sem flokkast undir að vera ofurheit. Verkefnið gengur m.a. út á að athuga jarðhitasvæði sem ekki hefur verið hægt að rannsaka með hefðbundnum aðferðum, t.d. vegna þess að hitinn í kerfunum er mjög hár og vökvaflæði lítið sem ekkert.

Seinni hluta vikunnar, miðvikudag og fimmtudag, verður alþjóðleg jarðvarmaráðstefna sem er jafnframt  lokaráðstefna á einu yfirgripsmesta samstarfsverkefni sem ÍSOR hefur tekið þátt í. Verkefnið nefnist IMAGE (Integrated Methods for Advanced Geothermal Exploration) og hefur staðið yfir í fjögur ár. Markmið þess var að þróa nýjar aðferðir til að rannsaka og meta jarðhitakerfi og staðsetja borholur með markvissari hætti. Rannsóknarverkefninu var skipt í tvo meginþætti, annars vegar að þróa aðferðir við jarðhitarannsóknir í gosbergi, eins og er hér á Íslandi, og hins vegar í setbergi, sem einkennir berggrunn Evrópu.
 
Hér á landi var sjónum einkum beint að jarðskjálftum og athugað hvernig hægt væri að nýta upplýsingar sem koma m.a. frá jarðskjálftabylgjum. Gögnum var safnað frá mjög þéttu mælaneti á Reykjanesskaganum, bæði frá mælum sem komið var fyrir á landi og á hafsbotni. Mælingar fengust frá 84 mælum, þar af 24 sem komið var fyrir á 50-200 m dýpi á hafsbotni úti fyrir Reykjanesi.
 
Það hefur oft reynst erfitt að mæla háan hita, eins og er í háhitaborholum á Íslandi. Tilraunir voru gerðar með að koma jarðskjálftamælum fyrir í borholum þar sem hitinn var um 250°C. Það gaf góða raun og veitti nýjar upplýsingar um uppbyggingu jarðskorpunnar og í hitann henni.  Eins var ljósleiðari notaður í fyrsta skipti til að mæla hita og staðsetja jarðskjálfta, sem telst frekar byltingarkennd nýjung. Gert var kort af spennuástandi jarðskorpu Íslands, sem ekki hefur verið til áður. Þessháttar kort gefur upplýsingar um hvernig sprungur liggja undir yfirborðinu og hvernig berg brotnar við minnstu jarðskorpuhreyfingar.
Rannsóknarverkefnið var styrkt af sjöundu rammaáætlun Evrópusambandsins og var heildarstyrkurinn um 10,1 milljón evra. Þar af var styrkupphæð til Íslands um 1,7 milljónir evra.
Verkefnisstjórn heildarverksins var í höndum hollensku jarðfræðistofnunarinnar TNO. Verkefnistjóri fyrir hönd ÍSOR er Gylfi Páll Hersir.
Alls tóku 19 aðilar þátt í verkefninu, þ.e. 11 jarðvísindastofnanir og 8 jarðhitaiðnfyrirtæki.