[x]
11. mars 2013

Alþjóðleg jarðhitaráðstefna í Hörpu 5.-8 mars sl.

Kynningarbás ÍSOR á jarðhitaráðstefnunni.Fjöldi innlendra sem erlendra sérfræðinga og stjórnenda heimsótti í vikunni alþjóðlega jarðhitaráðstefnu (Iceland Geothermal Conference 2013) hér á landi. Þetta er í fyrsta sinn sem slík ráðstefna er haldin á Íslandi.

Markmið ráðstefnunnar var meðal annars að kynna fjölbreytta nýtingu jarðhitans, farið var yfir tækniframfarir við jarðhitavinnslu og fjallað um fjármögnunarleiðir jarðhitaverkefna.

Sérfræðingar ÍSOR voru með erindi á ráðstefnunni. Ólafur G. Flóvens, forstjóri ÍSOR, flutti erindi um mikilvægi rannsókna við jarðhitaverkefni, Guðni Axelsson, deildarstjóri eðlis- og forðafræði, fjallaði um sjálfbæra nýtingu jarðhitans og Bjarni Richter, markaðsstjóri ÍSOR, stýrði málstofu um djúpborunarverkefnið IDDP.

Jarðhitaráðstefnan var vel sótt en alls voru þar um 550 manns frá um 40 löndum.
Aðalræðumenn ráðstefnunnar voru Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra, Sri Mulyani  Indrawati, framkvæmdastjóri Alþjóðabankans, Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar, Jefferson W. Tester, prófessor við Cornell-háskólann, Günther H. Oettinger, orkumálastjóri ESB, og Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.

ÍSOR var einn af styrktaraðilum ráðstefnunnar en um skipulag hennar sá Iceland Geothermal. Iceland Geothermal er klasasamstarf fyrirtækja, stofnana, háskóla og félaga sem vinna við jarðvarma.