[x]
9. desemeber 2005

Áhættufjárfestar í Bretlandi fjármagna leit að gulli

Enn er hafin leit að gulli á Íslandi, og er þar í fararbroddi fyrirtækið Melmi, sem er í eigu Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga og Iðntæknistofnunar.

Forsaga þessarar leitar hófst fyrir tæpum 20 árum síðan þegar ÍSOR, sem þá var hluti Orkustofnunar, hóf skipulega leit að gulli. Ástæða gullleitarinnar voru niðurstöður rannsókna um að gull félli út við sérstakar aðstæður í jarðhitakerfum, og ekkert sem mælti því í mót að slíkt ætti einnig við hér. Við hófum snemma samstarf við Kísiliðjuna í Mývatnssveit og Iðntæknistofnun, og stofnað var hlutafélagið Málmís um leitina. Góður stuðningur fékkst frá Rannsóknaráði ríkisins til verkefnisins. Fyrsti áfangi leitarinnar tók um þrjú ár, og var farið víða um land. Snemma kom í ljós að Þormóðsdalur, rétt austan Hafravatns, bar af öðrum stöðum hvað varðar magn gulls í bergi. Árið 1997 fór gullleit aftur af stað, og var stofnað fyrirtækið Melmi og fengust fjárfestar í gegnum verðbréfamarkaðinn í Kanada. Leit var haldið áfram og meðal annars voru gerðar viðamiklar yfirborðsrannsóknir í Þormóðsdal og boraðar 9 rannsóknarholur til að kanna útbreiðslu gullríka kvarsgangsins. Þegar rannsókn lauk kom annað hlé, enda áhuginn minni, að hluta til vegna afar lágs gullverðs. 

Nú er gullverð enn á ný komið í sögulegt hámark, og hefur ekki verið hærra síðan 1984, og hefur áhugi leitaraðila aukist mikið. Hafa tekist samningar við félag í Bretlandi um að fjármagna enn frekari gullleit í samstarfi við fyrirtækið Melmi. Verður áhersla fyrst lögð á að kortleggja mun betur með borunum kvarsganginn áðurnefnda, og meta rúmmál hans og hæfni til námuvinnslu.  Enn fremur eru uppi áform um að hefja enn frekari leit að gulli á svæðum á Vestur-, Norður- og Suðurlandi.  ÍSOR mun taka nokkurn þátt í leitinni og vera Melmi til  ráðgjafar.