[x]
20. ágúst 2009

Aflmiklar holur við Hverahlíð.

Orkuveita Reykjavíkur hefur unnið að undirbúningi Hverahlíðarvirkjunar síðustu árin og er ÍSOR aðalráðgjafi OR í jarðhitarannsóknum og borunum. Áætlað afl Hverahlíðarvirkjunar er 90 MW.  OR lét bora tvær háhitaholur við Hverahlíð á Hellisheiði fyrr í sumar. Þetta eru holur HE-53 og 54 og önnuðust Jarðboranir verkið. Báðar holurnar eru um 2500 m djúpar og stefnuboraðar, HE-53 nánast beint til suðurs en HE-54 til suðausturs langleiðina undir Skálafell eins og sést á meðfylgjandi korti.  Báðar holurnar skáru lekar æðar og ljóst í lok borunar að þetta yrðu öflugar holur ef hitinn í neðra væri um eða yfir 300°C eins og búist var við.  Hitamælingar hafa staðfest hitann og var holu HE-53 hleypt í blástur 30. júlí. Hún byrjaði blásturinn af krafti og hefur síðan sótt í sig veðrið jafn og þétt og skilar nú um 60 kg/s af vatn og gufu. Gufan frá holunni er um 34 kg/ sem nægir til framleiðslu á 17 MW af rafmagni. Væntanlega á hola HE-53 enn eftir að bæta sig. Hola HE-54 verður blástursprófuð á næstu dögum. Búist er við því að  sú hola verði öflugri en HE-53 þar sem hún er lekari  og jafnvel heitari en HE-53.  Staðfestar fréttir ætta að liggja fyrir um það á næstu vikum.

Á efri myndinni sést staðsetning holunnar og stefna en á þeirri neðri er holan í blæstri.