[x]
18. ágúst 2010

Afhjúpun minnisvarða um Dr. Helga Pjeturss

Sunnudaginn 22. ágúst n.k. verða afhjúpaðir minnisvarðar um Dr. Helga Pjeturss (1872-1949). Helgi stundaði nám við Hafnarháskóla og lauk doktorsprófi í jarðfræði 1905, fyrstur Íslendinga til að taka slíkt próf.

Doktorsritgerð hans nefnist Om Islands geologi. Helgi fór í margar rannsóknarferðir um Ísland á árunum 1898-1910 og gerði merkar vísindalegar uppgötvanir og skrifaði margt sem lengi mun halda nafni hans á lofti meðal jarðfræðinga. Hann var með fyrstu jarðfræðingum til að átta sig á því að ísöldin hafði ekki verið einn samfelldur fimbulvetur heldur skiptust á jökulskeið og hlýskeið.

Í desember árið 2005 voru liðin 100 ár frá því að Helgi varð doktor í jarðfræði og var honum af því tilefni reistur minnisvarði í Öskju, náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands.

Helgi gerði sínar fyrstu meginuppgötvanir að Hellisholtum í Hrunamannahreppi og hefur nú verið komið þar fyrir upplýsingaskildi til minningar um það afrek. Jafnframt hefur honum verið reistur minnisvarði að Hlíð í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, en Helgi hafði jafnan aðsetur hjá frændfólki sínu þar þegar hann vann að rannsóknum á þessum slóðum.

Minnisvarðarnir verða afhjúpaðir sunnudaginn 22. ágúst n.k. Fyrst í Hlíð kl. 14.00 og í framhaldi að Hellisholtum.

Að lokum verður boðið til kaffiveitinga á Flúðum.