[x]
26. ágúst 2005

Ævagamall ís í Öskju

Flestir sem koma í Öskju ganga suður að Víti. Á þeirri leið má sjá hjarn undir ljósum vikri úr Öskjugosinu 1875. Gosið varð seinni part vetrar það ár og vikurinn féll á snjó sem þá lá á jörðu. Fyrir um 11.300 árum gaus einnig ljósum vikri í Öskju. Hann finnst á fjöllum kringum Öskju og sem öskulag neðst í jarðvegi á Norðausturlandi. Lag þetta hefur verið nefnt S-lag. Nýlega gengu jarðfræðingar frá ÍSOR og Jarðvísindastofnun Háskólans um Norður-öskjuna sem svo er nefnt, en hún er norðan þeirrar stóru og nokkru hærra í landi. Norðan í henni er móbergsfell sem nefnt er Kollur. Utan í því að vestan, langt norðan við vikurgeira 1875-lagsins, er að finna breiður af S-laginu. Þar er það loftfallið og úr vikri. Í hluta lagsins eru vikurstykkin fast að 30 cm löng og lagið sjálft um 1 m á þykkt. Landhæð er þarna rúmir 1100 m. Þetta væri ekki frásagnarvert nema vegna þess að undir vikrinum er glær ís, hreinn og tær, en óvíst hversu þykkur. Þarna hefur ísinn varðveist í rúm 11.300 ár undir einangrandi hulu úr vikri og lausaefni sem borist hefur ofan brekkurnar út yfir hann. Ísöld lauk fyrir ~11.450 árum. Fróðlegt verður að rannsaka vatnið í ísnum, t.d. vetnis- og súrefnis-samsætur þess, til samanburðar við samsætur í regnvatni þar nú og lauga- og hveravatni norðaustast á landinu.