[x]
24. maí 2007

Aðild ÍSOR að orkuskólum á Íslandi

Undanfarið hafa verið talsverðar fréttir í fjölmiðlum um stofnun orkuskóla á þremur stöðum á landinu. ÍSOR er þegar orðinn þátttakandi í tveimur þeirra og hefur náið samstarf við Háskóla Íslands um þessi mál. Fyrst ber þar að telja Orkuskólann á Akureyri (RES - Renewable Energy School). Það er hlutafélagið Orkuvörður sem á skólann og rekur. Honum er sérstaklega ætlað í byrjun að höfða til nemenda í fyrrum austantjaldsríkum Mið-Evrópu. Hann hefur nú fengið styrk úr þróunarsjóði EFTA og mun hefja kennslu í ársbyrjun 2008. Nánar má fræðast um skólann í heimsíðu hans www.res.is. ÍSOR hefur undirritað viljayfirlýsingu um samstarf við RES skólann og mun væntanlega taka að sér að sjá um tiltekin námskeið á sviði jarðhitafræða. Þá er búið að stofna skólann og þekkingarsetrið Keili á Keflavíkurflugvelli.  Hann er hlutafélag þar sem helstu hluthafar eru Háskóli Íslands, Hitaveita Suðurnesja, Glitnir og Geysir Green Energy. Að auki eru fjölmargir litlir hlutahafa sem voru stofnaðila, þar á meðal ÍSOR sem leggur 1Mkr fram í hlutafé. ÍSOR undirritaði nýverið stofnsamning Keilis ásamt öðrum stofnaðilum við hátíðlega athöfn á Keflavíkurflugvelli að viðstöddum forseta Íslands og þremur ráðherrum. Þá tekur ÍSOR þátt í starfi undirbúningshóps sem vinnur að uppbyggingu orkubrautar Keilis. Þá hafa Háskólinn í Reykjavík, Háskóli Íslands og Orkuveita Reykjavíkur skrifað undir samkomulag um að byggja upp sameiginlegt framhaldsnám í orkuvísindum, og stefna að því að rannsóknatengt meistara- og doktorsnám hefjist haustið 2008.  ÍSOR er ekki aðili að þessu máli en starfsmenn ÍSOR kenna nú þegar jarðhitafræði við Háskólann í Reykjavík. Loks má nefna að vinna við framkvæmd samstarfssamning ÍSOR og HÍ er í fullum gangi.