[x]
13. apríl 2011

Aðalfundur og fróðleg tæknisýning ÍSOR

Aðalfundur ÍSOR var haldinn í Orkugarði föstudaginn 8. apríl sl. Iðnaðarráðherra, Katrín Júlíusdóttir, ávarpaði gesti.

Ný stjórn var boðin velkomin til starfa en þrír nýir meðlimir taka sæti í henni. Það eru þau Sigrún Traustadóttir viðskiptafræðingur og stjórnarformaður, Sveinbjörn Björnsson, jarðeðlisfræðingur og Ingvi Már Pálsson lögfræðingur. Áfram munu sitja í stjórninni þær Guðrún Helga Brynleifsdóttir, lögfræðingur og fráfarandi stjórnarformaður, og Svanfríður Jónasdóttir, bæjarstjóri á Dalvík.

Kynning á halla og stefnumælingum í borholum. Ljósm. Jón RagnarssonÓlafur G. Flóvenz forstjóri fór yfir starfsemi ársins en þar kom meðal annars fram að mikill samdráttur hefur verið í innlendum verkefnum en verkefni erlendis hafa aukist verulega. Tekjur af erlendum verkefnum námu 31% af tekjum ársins 2010 á móti 8% tekna á árinu 2008. Hluti þessara tekna er vegna íslenskra þróunarsamvinnu á sviði jarðhita, bæði gegnum Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna og Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Helstu verkefni ÍSOR erlendis voru í Chile, Níkaragva, Kenía, Tyrklandi, Indónesíu, Ungverjalandi og Þýskalandi.

Að loknum aðalafundi var samstarfsaðilum og verkaupum boðið til tæknisýningar í húsakynnum ÍSOR. Það gátu gestir kynnt sér fjölbreyttan tækjakost sem notaður er við jarðhitarannsóknir, auk þess að spjalla við sérfræðinga fyrirtækisins. Á sýningunni gafst til dæmis tækifæri til að sjá upptöku úr borholumyndavél þar sem farið var niður í holu SD-01 í Skarðdal. Borholumyndavél. Ljósm: Jón Ragnarsson.Þar náðust skemmtilegar myndir af því þegar komið var niður á ákveðið dýpi í holunni og lekar sprungur komu í ljós. Einnig þótti vinsælt að fá sér snúning í líkingu við gíró (snúð). Gírómælar eru notaðir til að fylgjast með stefnu og halla borholunnar.

ÍSOR þakkar öllum fyrir ánægjulegan dag.

Ársskýrsla ÍSOR kom út sama dag og má nálgast skýrsluna hér á vefnum.

 

 

 

Borholumælingabílar ásamt tækjabúnaði voru til sýnis.