[x]
1. september 2004

Að minnsta kosti 7 nýjar hverastrýtur hafa fundist á botni Eyjafjarðar.

Að frumkvæði ÍSOR var rannsóknarskip Landhelgisgæslunnar  fengið til að kortleggja botninn milli Arnarnesvíkur og Laufássgrunns vegna hugsanlegrar hitaveitulagnar til Grenivíkur. Rannsóknarskipið Baldur er búið fjölgeisladýptarmæli sem skilar nákvæmri mynd af hafsbotninum. Mælingarnar leiddu í ljós mjög ákveðna línu af strýtum norður af Arnarnesi og virðast vera þar a.m.k. 7 strýtulaga fyrirbæri. Reyndar sýndu mælingar líka aðra línu örlítið vestar þar sem að voru tvö hrúgöld sem er ekki alveg búið að skera úr um enn þá hvað er. Kafað hefur verið niður að strýtunum til að kanna þær betur og sjá hvort þær eru sambærilegar myndanir og þær tvær hverastrýtur sem fundust austan til í firðinum fyrir nokkrum árum. Þær voru friðaðar og hefur verið vinsælt meðal kafara að kafa niður að þeim.

Bjarni Gautason jarðfræðingur ÍSOR á Akureyri segir þessar nýfundnu hverastrýtur vera um 10 metra háar og úr þeim streymi talsvert magn af um 77 stiga heitu vatni. Hann segist þó ekki sjá í hendi sér að hægt sé að nýta vatnið, en lífið í firðinum geri það. Það sé mikill botngróður og dýralíf í kringum strýturnar.

Áfram verður unnið að könnun á þessum strýtum og tengslum þeirra við þekkt jarðhitasvæði á landi.

Á myndinn hér fyrir neðan sjást strýturnar eins og þær birtast við úrvinnslu fjölgeisladýptarmæligagna í Fledermaus. Fastalandið er svarti flekkurinn hægra megin en blái hlutinn er dýpsti hluti Eyjafjarðar.