[x]
28. ágúst 2006

26. notendaráðstefna ESRI

Dagana 7.-11. ágúst síðastliðinn var haldin í San Diego í Californiu hin árlega alþjóðlega notendaráð- stefna ESRI í 26. sinn. ESRI er einkafyrirtæki sem stendur að baki landupp- lýsingakerfunum ArcInfo, ArcGis og hliðstæðum forritum. Slagorð ráðstefnunnar í ár var Geography and GIS; Communicating Our World.  3 starfsmenn ÍSOR sóttu ráðstefnuna að þessu sinni í hópi 14 Íslendinga, en alls voru þar um 14.000 þátttakendur. Nær öll kort sem gerð eru á ÍSOR eru unnin í þessum land- upplýsingakerfum og því mikilvægt að fylgjast með nýjungum og þróun á þessu sviði.  Ráðstefnan var ákaflega vel skipulögð og var flesta dagana hægt að velja milli um 50 samtíma fyrirlestra um margvísleg efni. Athyglisverðustu fyrirlestrarnir voru tæknilegs eðlis, haldnir af starfsfólki ESRI.  Fjölluðu þeir um kynningu á nýjungum í forritunum eða voru hreinir kennslufyrirlestrar. Auk þeirra voru fjölmargir notendafyrirlestrar. Í  tengslum við ráðstefnuna var stór kortasýning og sýning á vél- og hugbúnaði. Þess má geta til gamans að framlag Íslands á kortasýninguni, Íslandsatlasinn nýji sem bókaútgáfan Edda gaf út síðastliðinn vetur hlaut þrenn verðlaun á ráðstefnunni: 1. verðlaun í hópi kortaflokka, 1. verðlaun í atkvæðagreiðslu fólksins og síðast en ekki síst var hann valinn besta kort sýningarinnar af ESRI dómnefndinni. Höfundur Íslandsatlasins er Hans H. Hansen, en að bókinni komu auk hans m.a. ÍSOR starfsmaðurinn Haukur Jóhannesson og Oddur Sigurðsson starfsmaður Orkustofnunar. Er þeim öllum færðar hamingjuóskir.