[x]
5. janúar 2005

100 ára afmæli rafvæðingar minnst

Undanfarin ár hefur Norðurorka haldið málþing um starfsemi fyrirtækisins og rannsóknir á þess vegum á því ári. Þann 30. desember sl. stóð Norðurorka fyrir slíku málþingi og var þar jafnframt minnst 100 ára afmælis rafvæðingar á Íslandi. Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra lagði hornstein að Glerárvirkjun og afhenti jafnframt formlega virkjunarleyfi fyrir þeirri virkjun. Franz Árnason forstjóri Norðurorku sagði frá starfsemi og framkvæmdum á vegum Norðurorku. Sérfræðingar Íslenskra orkurannsókna sögðu frá rannsóknum undanfarinna missera og fjallaði Bjarni Gautason þar um hverastrýturnar undan Arnarnesi, sem fundust í sumar, og hreinsun holu LÞN-10 á Þelamörk. Þorsteinn Egilson sagði frá forðafræði jarðhitakerfanna sem Norðurorka nýtir nú og framtíðarhorfur. Loks fjallaði Bjarni Gautason um Orkumál á Norðurlandi f.h. Ólafs Flóvenz, forstjóra ÍSOR, sem því miður gat ekki verið viðstaddur sjálfur. Á fundinum gengu Norðurorka og Landsvirkjun formlega frá samningum um raforkukaup til næstu ára. Fjölmenni var á málþinginu sem stjórnað var af Bjarna Jónassyni formanni stjórnar Norðurorku.