[x]

36. Seltjörn - fjörumór

Seltjörn, setlög úr sandi og möl í forgrunn, Grótta í bakgrunni.  Land er að síga við sunnanverðan Faxaflóa. Þetta sést bæði í gömlum örnefnum og í jarðlögum og kemur fram í beinum mælingum. Þegar land byggðist virðist hafa verið allmikil tjörn eða stöðuvatn á Seltjarnarnesi sem nesið dró nafn sitt af. Vegna landsigs og ágangs sjávar breyttist tjörnin í breiða sjávarvík milli Gróttu og Suðurness.

Bakkatjörn hefur upphaflega verið hluti af Seltjörn. Talið er að allt fram á 18. öld hafi Seltjarnarrif (eða Suðurnesrif) lokað Seltjörn og hún því verið með fersku eða lítt söltu vatni fram til þess tíma. Þegar lágsjávað er við ströndina t.d. á stórstraumsfjöru koma sérkennilegar jarðvegstorfur í ljós sem standa upp úr sandinum og sjávarmölinni við ströndina við sunnanverða Seltjörn. Þetta er fjörumór sem myndast hefir í vel gróinni mýri sem nú er nánast sokkin í sjó. Framhald mólaganna sést í fjörunni í Bakkavík við suðurströnd Seltjarnarness þarna skammt frá.  Mólagið er 1,5-2 m á þykkt og hefur myndast á alllöngum tíma, neðstu mólögin eru um 10.700 ára en efstu lögin eru um 3000 ára. Þau sýna að Seltjarnarnes hefur sigið um 3-5 m á síðustu 3000 árum og um 1-1,5 m frá landnámstíð.

Fjörumór finnst víðar á SV-landi, t.d. við Sjávarhóla og Kléberg á Kjalarnesi og utan við Garðskagavita.

 

Aðgengi

Staðsetningarkort af Seltjörn á SeltjarnarnesiFinna má fjörumóinn með því að fara frá bílastæðinu við utan við Bakkatjörn, yfir brimvarnargarðinn við Seltjörn og að sjávarmálinu á stórstraumsfjöru. Á hálfföllnum sjó og flóði sést hvorki tangur né tetur af fjörumónum.

Árni Hjartarson, 2010