[x]

14. Húshólmi /Óbrennishólmi - rústir og samspil byggðar og eldgosa

Allstór óbrinnishólmi austast í Ögmundarhrauni niður undir sjó. Hólminn opnast niður í fjöru. Ögmundarhraun sem brann árið 1151 umlykur hann. Í hólmanum og kimum vestur úr honum eru mannvistarleifar sem eru eldri en hraunið. Í aðalhólmanum eru tveir fornir torfgarðar sem hraunið hefir runnið upp að og yfir. Annar þeirra var hlaðinn fyrir árið 871, er landnámsöskulagið féll, og því eitt elsta mannvirki sem fundist hefir í landinu. Í kimunum eru húsatóftir sem hraunið rann upp að og að stórum hluta yfir. Þar eru leifar af stórum bóndabæ sem hlaðinn hefir verið að hluta úr lábörðu grjóti. Þar er einnig heilleg tóft sem talin hefur verið af kirkju. Þessi staður nefnist Forna-Krýsuvík og þar hefir Krýsuvíkurbærinn staðið frá upphafi og fram að gosi er hann hefir verið fluttur á núverandi stað.

Óbrennishólmi er í miðju Ögmundarhrauni norðvestur af Húshólma. Gengið er í hólmann frá fjallinu Lat. Þá er farinn misglöggur stígur um Ögmundarhraun sem brann árið 1151. Í Óbrennihólma er forn, hringlaga fjárborg og einnig eru þar leifar af túngarði. Þessar mannvistaleifar eru eldri en hraunið.

Aðgengi

Staðsetningarkort af HúshólmaGengið er frá vegi niður með Ögmundarhrauni að austan uns komið er að stíg sem liggur efst í Húshólma. Varða er í hraunbrúninni þar sem stígurinn hefst.

Haukur Jóhannesson, 2010