[x]

Kortabók og stafrænn gagnagrunnur af jarðfræði NA-Atlantshafs

Kortabók og stafrænn gagnagrunnur af jarðfræði NA-Atlantshafs. NAGTEC (Northeast Atlantic Geoscience Tectonostratigraphic Atlas)
 
Málstofa auðlindadeildar Háskólans á Akureyri.
Fimmtudaginn 13. nóvember, kl. 12–13.
Stofa N102, Sólborg við Norðurslóð.
Fyrirlesari: Anett Blischke, jarð- og jarðeðlisfræðingur hjá Íslenskum orkurannsóknum (ÍSOR) og doktorsnemi við Háskóla Íslands.

Anett Blischke, jarð- og jarðeðlisfræðingur, er ein af sérfræðingum ÍSOR sem tóku þátt í norræna samstarfsverkefninu NAGTEC (Northeast Atlantic Geoscience Tectonostratigraphic Atlas) http://nagtec.org/home.seam.

Þetta var fjögurra ára samstarfsverkefni níu jarðfræðistofnana frá Danmörku, Noregi, Færeyjum, Bretlandi, Írlandi, Íslandi, N-Írlandi, Hollandi og Þýskalandi. Verkefnið var unnið á árabilinu 2011–2014. Verkið fólst í úttekt á jarðfræði hafsbotns NA-Atlantshafsins og var tilgangurinn m.a. að veita innsýn í jarðsögulega þróun NA-Atlantshafsins, opnun svæðisins, rekhraða og stefnu, eldvirkni sem þar hefur orðið og þróun setmyndunar. Það hefur einnig skerpt sýn manna á segulsvið, þyngdarsvið, jarðefnafræði og hitaflæði jarðskorpunnar. ÍSOR sá um úrvinnslu gagna sem varða hafsbotninn kringum Ísland, bæði um landgrunnið sjálft og úthafsbotninn langt suður og norður í höf. Jan Mayen svæðið var einnig nánast alfarið undir hatti ÍSOR.

Afrakstur verkefnisins er kortabók af svæðinu, sem gefin verður út á almennum markaði árið 2016, og stafrænn gagnagrunnur sem opnaður verður árið 2019.

Anett Blischke er frá Saxlandshéraði í Þýskalandi og kom til Íslands árið 2004. Hún lauk BS-námi í jarðfræði við Tæknivísindaháskólann í Berlín í Þýskalandi 1995 og MS-námi í jarð- og jarðeðlisfræði  við Háskólann í Oklahoma í Bandaríkjunum 1997. Anett stundar doktorsnám í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands. Doktorsverkefnið snýr að jarðfræðilegri túlkun, kortlagningu og mati á mögulegum kolvetnis auðlindum á Jan Mayen hryggnum. Anett hefur starfað í Bandaríkjunum, Englandi og Skotlandi í olíuiðnaði hjá Phillips Petroleum og ConnocoPhillips. Á árunum 1997 til 2004 fékkst hún við rannsóknir í tengslum við olíuleit í Bandaríkjunum, Kúveit, Egyptalandi, Alsír, Bretlandi og Noregi. Anett starfar nú hjá ÍSOR þar sem hún sérhæfir sig í auðlindaleit og mati á olíu- og jarðhitasvæðum, hér á landi og erlendis. Hún hefur komið að verkefnum í Noregi, Grænlandi, Þýskalandi, Ungverjalandi, Tyrklandi, Slóvakíu, Slóveníu, Sviss, Belgíu og á Norður-Atlantshafssvæðinu.

Fyrirlesturinn verður haldin á ensku.

Allir velkomnir