Skip to content

Endurnýjanlegar orkulindir

Með endurnýjanlegri orkulind er átt við að orka komi í stað þeirrar sem menn taka úr lindinni, það er að segja orkulindin minnkar ekki þótt af sé tekið. Það er ekki alveg einfalt að skilgreina hvað telst endurnýjanleg orkulind, en á alþjóðavettvangi hafa menn þó komið sér saman um hvaða orkulindir skuli teljast endurnýjanlegar og hverjar ekki. Vatnsorka, vindorka, sólarorka og haforka eru góð dæmi um endurnýjanlegar orkulindir, þær eiga allar uppruna sinn í sólargeislun og munu viðhaldast svo lengi sem hennar nýtur. Þrátt fyrir það geta þessar orkulindir breyst vegna staðbundinna breytinga í rennsli vatns, geislun sólar eða streymi hafs og vinda.

Orkulindir jarðefna eins og olía, kol og jarðgas eru ekki taldar endurnýjanlegar orkulindir því við vinnslu þeirra endurnýjast jarðefnin ekki (einhver nýmyndun á sér reyndar stað en hún er ofurhæg miðað við nýtingarhraðann).

Lífmassi til brennslu, t.d. trjáviður, telst endurnýjanleg orkulind ef skóglendi er ræktað jafn hratt og það er höggvið til brennslu, jafnvel þótt það sé ekki gert á sama stað.

Jarðhitinn er endurnýjanleg orkulind

Jarðhitinn er skilgreindur alþjóðlega sem endurnýjanleg orkulind. Jarðhitinn á rætur sínar að rekja til varmastraums djúpt úr heitum iðrum jarðar og mikillar varmaorku í jarðskorpunni sem endurnýjast stöðugt vegna geislavirkni í jörðu. Varmastraumurinn tapast um yfirborð jarðar út í lofthjúpinn nema hann sé nýttur. Varmaorkan í jarðskorpunni er gríðarlega mikil og aðeins um 0,1% hennar þyrfti til að anna núverandi heildarorkuþörf mannkyns í um 10.000 ár. Jarðhitinn er alls staðar fyrir hendi en í mismiklum mæli og misaðgengilegur. Það eru tæknileg og fjárhagsleg atriði sem takmarka nýtingu þessarar gríðarmiklu orku. Sums staðar, eins og á Íslandi, eru aðstæður með þeim hætti að auðvelt og fremur ódýrt er að nýta jarðhitann, annars staðar mjög erfitt og dýrt. Þegar við vinnum orku úr jörðu á jarðhitasvæðum erum við bæði að nýta varmastrauminn og taka bundna varmaorku úr jarðskorpunni. Í stað orkunnar sem við tökum streymir stöðugt inn varmaorka að neðan. Við jarðhitavinnslu er þó oft tekin meiri varmaorku úr jörðu á litlum svæðum en nemur orkunni sem kemur í staðinn. En varmaforðinn sem bundinn er í heitu bergi jarðhitasvæðanna er þó svo mikill að þau kólna yfirleitt mjög hægt.

Rétt er að benda á að bæði er unnt að nýta jarðhitann á sjálfbæran hátt og ósjálfbæran.