[x]

Einelti, áreitni og/eða ofbeldi hjá ÍSOR

Undir engum kringumstæðum er einelti, kynbundin áreitni, kynferðisleg áreitni eða ofbeldi umborið hjá ÍSOR. Í þessari áætlun er stuðst við reglugerð nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

Hvað er einelti, áreitni og ofbeldi?

Einelti er endurtekin ósanngjörn og/eða móðgandi hegðun gagnvart samstarfsfélögum. Birtingarmynd eineltis getur verið neikvæð og/eða ógnandi endurtekin samskipti sem valda vanlíðan hjá samstarfsmanni. Ekki er litið svo á að ágreiningur vegna verkefna, hagsmuna og mismunandi skoðana flokkist sem einelti.

Kynbundin áreitni er neikvæð hegðun sem tengist kyni viðkomandi og er til þess fallin að misbjóða þeim sem henni verður fyrir og valda viðkomandi vanlíðan.

Kynferðisleg áreitni er kynferðisleg samskipti sem er gegn vilja samstarfsmanns og til þess fallin að misbjóða viðkomandi. Daður telst ekki vera kynferðisleg áreitni nema um ítrekaða og óvelkomna hegðun sé að ræða.

Ofbeldi er hegðun sem getur leitt til líkamlegs eða sálræns skaða. Einnig er hér átt við hótun um ofbeldi, þvingun eða svipting frelsis viðkomandi.

Viðbragðsáætlun:

Þegar starfsmaður telur sig hafa orðið fyrir einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni eða ofbeldi eða hefur vitneskju um slíka hegðun skal hann upplýsa mannauðsstjóra eða þann stjórnanda sem starfsmaðurinn treystir þ.a.s. deildarstjóra, yfirverkefnisstjóra eða forstjóra.

ÍSOR skuldbindur sig til að bregðast við eins fljótt og kostur er komi fram ábending eða kvörtun um einelti, áreitni eða ofbeldi. Miðað er við að rannsókn vegna atviks fari í gang innan einnar viku eftir að tilkynning berst. Hvert mál er metið af stjórnanda í samvinnu við viðkomandi starfsmann og utanaðkomandi ráðgjafa ef með þarf.

Viðbragðsáætlun þegar kvörtun berst:

  1. Fyrsta skrefið er samtal milli þolanda og mannauðsstjóra/stjórnanda þar sem nánari upplýsinga er leitað. Einnig skal trúnaðarmaður að vali þolanda vera viðstaddur ef þolandi óskar eftir því. Skrifað er stutt minnisblað í trúnaði, aðrir á vinnustaðnum eru ekki upplýstir um málið að svo stöddu utan forstjóra.
  2. Næsta skref er að meta hvort aðkallandi sé að þolandi fái faglega aðstoð hið fyrsta og hún þá veitt og að komið sé í veg fyrir frekari áreitni. Það gæti verið með tilfærslu eða breytingum á staðsetningu aðila á vinnustaðnum.
  3. Næsta skref er hlutlaus athugun á málsatvikum sem mannauðsstjóri hefur umsjón með þar sem hagsmunir þolanda eru hafðir að leiðarljósi. Haft verður samband við þá sem að málinu koma en þess verður gætt að draga ekki fleiri inn í málið en nauðsyn krefur. Leitað er eftir aðstoð fagaðila utan ÍSOR eftir þörfum. Minnisblað er skrifað sem inniheldur tímasetningar og aðila sem koma að málinu og eru allar upplýsingar meðhöndlaðar sem trúnaðarmál. Gögn er málið varðar eru geymd í starfsmanna-möppu í læstum skjalaskáp á skrifstofu mannauðsstjóra.
  4. Í kjölfarið er leitað lausnar á málinu í samráði við þolanda. Í því getur t.d. falist breyting á vinnuskipulagi, vinnubrögðum, aðstoð utanaðkomandi ráðgjafa. Ef í ljós kemur að um einelti, áreitni eða ofbeldi hafi verið að ræða er hægt að grípa til eftirfarandi aðgerða, allt eftir alvarleika málsins:

a. Gerandi fær aðvörun og í kjölfarið leiðsögn og færi á að bæta ráð sitt.
b. Gerandi fær formlega áminningu.
c. Geranda er vikið úr starfi.

Alvarleg atvik verða kærð til lögreglu með samþykki þolanda. Ef ekki fæst viðeigandi lausn að mati þess sem tilkynnir þá getur hann leitað til síns stéttarfélags og/eða Vinnueftirlitsins.

Ef gerandi er ekki starfsmaður en einelti, áreitni eða ofbeldi á sér stað gagnvart starfsmanni ÍSOR þegar hann gegnir starfi sínu skal næsti yfirmaður strax rannsaka málsatvik og grípa til aðgerða tafarlaust til að varna að slíkt komi fyrir aftur.